Staðhæft er í breska blaðinu The Guardianí dag að Bandaríkjastjórn íhugi nú að taka upp stjórnmálasamband við Íran en stjórnmálasamband hefur ekki verið á milli ríkjanna frá árinu 1979. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.
Talsmaður Bandaríkjastjórnar hefur neitað að tjá sig um staðhæfingar blaðsins en í gær staðfesti talsmaður stjórnarinnar að hún hefði ákveðið að senda fulltrúa sinn á fund með írönskum embættismönnum um kjarnaorkumál Írana.
Mikil óánægja mun vera meðal ísraelskra ráðamanna vegna þeirrar ákvörðunar Bandaríkjastjórnar að William Burns, aðstoðarutanríkisráðherra og þriðja æðsta mann bandaríska utanríkisráðuneytisins, taki þátt í fundinum.
Um er að ræða reglulegan fund fulltrúa Þjóðverja og Evrópusambandsins með fulltrúa Írana en þetta verður í fyrsta skipti sem fulltrúi Bandaríkjastjórnar tekur þátt í slíkum fundi.
Talsmaður Bandaríkjastjórnar sagði í gær að um undantekningartilfelli væri að ræða og að ástæða þess að Burns taki þátt í fundinum sé sú að Bandaríkjastjórn treysti því ekki að skýrslur Javiers Solana, sem fer með utanríkismál innan framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, um það sem fram fari á fundinum verði hlutlausar.
Heimildarmenn The Guardian, segja Bandaríkjastjórn hins vegar einnig líta á fundinn sem þátt í því að vega það og meta hvort þeir eigi að taka upp nánara samstarf við yfirvöld í Íran.