Nærri einn þriðji íbúa Missisippi, Alabama og Tennessee er of feitur. Suðrið heldur þeim vafasama heiðri að vera sá landshluti þar sem hvað flestir offitusjúklingar búa.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu í dag. Niðurstöður hennar hafa verið svipaðar undanfarin þrjú ár. Þrjú hundruð og fimmtíu þúsund manns tóku þátt í símakönnuninni. Niðurstöður eru sagðar sýna heldur of lágar tölur þar sem karlmenn ýkja oft hæð sína og konur lækka gjarnan líkamsþyngd sína í svörum.
Colorado var það fylki þar sem fæstir mældust of þungir, þar var hlutfallið nítján prósent.
Hvers vegna ætli Suðrið komi svo illa út? Hefðbundið mataræði fólks í Suðurríkjunum er fituríkt og djúpsteikt og það skýrir sennilega mikið,segja sérfræðingar.
Að auki býr tiltölulega hátt hlutfall íbúa í dreifbýli og sömuleiðis búa þar fleiri þeldökkar konur en annars staðar en hlutfall feitra er hærra í þessum hópum en öðrum.
Colorado fylki er hins vegar þekkt fyrir líkamsþjálfun. Þar er að finna fjölda göngu- og hjólreiðastíga og hæð fylkisins yfir sjávarmáli gerir það að auki að verkum að líkaminn erfiðar þar meira en á mörgum öðrum stöðum.