Nelson Mandela, fyrrverandi forseti Suður-Afríku, hefur látið lítið á sér bera á níræðisafmælinu í dag. Hann ætlar að verja deginum með fjölskyldu sinni í þorpinu Qunu skammt frá Höfðaborg. Hann notaði þó tækifærið og hvatti hina ríku til að leggja meira að mörkum til að bæta hag hinna fátæku.
„Þeir fátæku eru ekki líklegir til að verða langlífir," sagði Mandela við blaðamenn í dag. „Það er margt ríkt fólk í Suður-Afríku og sem getur deilt auði sínum með þeim, sem ekki eru jafn lánsamir og tekst ekki að sigrast á fátæktinni."
Mandela í augum margra tákn um frið og fyrirgefningu. Hann sat í fangelsi í 27 ár vegna baráttu sinnar gegn aðskilnaðarstefnu stjórnvalda í Suður-Afríku. Hann var látinn laus árið 1990. Árið 1993 deildi hann friðarverðlaunum Nóbels með Frederik Willem de Klerk, þáverandi forseta, fyrir að vinna að friðsamlegum valdaskiptum í landinu.
Mandela var kjörinn fyrsti svarti forseti landsins árið 1994. Hann lét af embættinu árið 1999 en beitti sér í kjölfarið í ýmsum málum, bæði á alþjóðavettvangi og heimafyrir. Árið 2004, þegar Mandela var 85 ára, hætti hann að mestu að koma fram opinberlega.
De Klerk sagði í dag að Mandela hefði notað persónutöfra sína til að bræða margbrotið samfélag Suður-Afríku saman í eina fjölbreytta þjóð.