Múgur réðist að lögreglumönnum

Croydon hverfi í London
Croydon hverfi í London Reuter

Hópur unglinga réðist að tveimur lögreglumönnum í Croydon hverfi í London á miðvikudag. Var annar lögreglumannanna bitinn ítrekað og hinn varð fyrir spörkum. Upphaf átakanna var ábending um hirðusemi.

Ofbeldið braust út eftir að lögreglumennirnir töluðu við unglingsstúlku eftir að hún henti rusli á götuna. Báðu þeir hana að tína það upp, sem hún gerði, til þess eins að henda því strax aftur á götuna. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Þegar þeir báðu hana að tína það upp aftur varð félagi stúlkunnar æstur og múgur byrjaði að safnast að.

Skyndilega stökk fimmtán ára gömul stúlka að lögreglumanninum sem hafði talað við unglingsstúlkuna og beit hann í öxl og brjóstkassa.

Þannig lýsti lögreglumaðurinn kringumstæðum: Þau sveimuðu í kringum okkur og það var augljóst að þeim fannst þau ráða við okkur í krafti fjöldans. Þetta voru fleiri en þrjátíu krakkar.

Hann segir að hegðunin hafi verið með ólíkindum og furðulegt að manneskja skuli stökkva svona á aðra manneskju og bíta hana á þennan hátt.

,,Þau hegðuðu sér eins og dýr en ég hika við að nota orðið dýr því dýr myndu ekki hegða sér svona. Dýr hafa ástæðu fyrir gerðum sínum.”

Hinn lögreglumaðurinn var dreginn niður í átökunum og síðan sparkað í hann.

Fimmtán ára stúlka var handtekin, grunuð um líkamsárás. Henni var síðan sleppt gegn tryggingu. Tveir karlmenn, 34 og 38 ára, voru svo handteknir í gær, grunaðir um líkamsárás og ólæti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert