Greint hefur verið frá því að lögregla og leyniþjónusta Ísraels hafi fyrir nokkru handtekið sex menn, sem taldir eru tengjast al Qaeda samtökunum, í Austur-Jerúsalem vegna meintra áætlana þeirra um að ráðast á þyrlu George W. Bush Bandaríkjaforseta er hann var nýlega á ferð í Miðausturlöndum. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.
Tveir mannanna munu vera Palestínumenn með ríkisborgararétt í Ísrael en fjórir Palestínumenn sem skráðir eru í Austur-Jerúsalem.
Fram kemur í málskjölum, sem fréttabanni var aflétt af í morgun, að mennirnir hafi verið í sambandi við liðsmenn al Qaeda á netinu og m.e. rætt um stofnun sellu samtakanna í Ísrael. Þá segir að einn mannanna hafi útvegað samtökunum myndir af fyrrhuguðum lendingarstað þyrlu forsetans við háskólann í Jerúsalem.
Einnig fundust leiðbeiningar um sprengjugerð í tölvum mannanna.
Í maí á þessu ári voru tveir ísraelskir bedúínar handteknir sakaðir um að hafa útvegað al Qaeda samtökunum upplýsingar um herstöðvar Ísraelshers og „heppilega” staði til hryðjuverkaárása gegn almenningi. Eru mennirnir fyrstu ísraelsku ríkisborgararnir sem handteknir hafa verið vegna meintra tengsla við al Qaeda samtökin.
Ekki er vitað til þess að al Qaeda samtökin hafi sellur á Vesturbakkanum eða á Gasasvæðinu.