Samningamenn Írana og Evrópusambandsins ákváðu á fundi í Genf í dag að halda annan fund eftir hálfan mánuð um kjarnorkuáætlun Írana. Fulltrúar sex stórvelda sátu fundinn í Genf í dag, þar á meðal aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Stjórnvöld í Íran útilokuðu í dag, að þau myndu hætta auðgun úrans eins og alþjóðasamfélagið hefur krafist. En Javier Solana, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, sagði fréttamönnum eftir fundinn í dag að þeir Saeed Jalili, aðalsamningamaður Írana í kjarnorkumálum, hefðu ákveðið að ræðast við að nýju, annað hvort símleiðis eða á fundi, eftir hálfan mánuð.
William Burns, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, sat fundinn í dag en tók ekki til máls.