Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti í dag að Bretar muni auka fjárframlög til Palestínu og veita 30 milljónum punda til aðstoðar Palestínumönnum. Framlagi Breta er ætlað að styðja við efnahagslíf Palestínumanna, en Bretar hafa þegar heitið 250 milljónum punda til Palestínu á næstu þrem árum. Brown átti fund með Mahmud Abbas, forseta Palestínu í Betlehem á Vesturbakkanum í dag.
Brown er í tveggja daga opinberri heimsókn í Ísrael og Palestínu. Brown mun eiga fund með Ehud Olmert, forsætisráherra Ísraels, síðar í dag. Þetta er fyrsta heimsókn Browns til Ísrael og Palestínu eftir að hann varð forsætisráðherra, en tilgangur ferðar Browns er að hvetja til áframhaldandi friðarviðræðna á milli Ísraela og Palestínumanna.