Fjórar sprengjur sprungu í Cantabría héraði á norðurhluta Spánar í dag. Sú fyrsta sprakk um hádegi á staðartíma í strandbænum Laredo. Nokkrum tímum síðar varð önnur sprenging í sama bæ. Þá sprungu tvær sprengjur í Noja, um 20 kílómetra frá Laredo, sem er einn af vinsælustu ferðamannastöðum á Norður-Spáni.
Basknesku aðskilnaðarsamtökin ETA hafa lýst yfir ábyrgð á sprengjunum, og að sögn lögreglu sendu samtökin viðvaranir. Búið var að rýma svæðin að mestu áður en sprengjurnar fóru í gang, en enginn særðist í tilræðunum.