Frægasti glæpamaður Svía enn í klandri

Clark Olofsson, frægasti glæpamaður Svíþjóðar, var handtekinn um helgina í Varberg í suðurhluta Svíþjóðar, grunaður um aðild að stórfelldu fíkniefnabroti. Olofsson, sem er 61 árs, hefur nú skipt um nafn, heitir nú Daniel Demuynck og er með belgískan ríkisborgararétt.

Að sögn fréttavefjar Dagens Nyheter vill lögreglan lítið tjá sig um málið að öðru leyti en að sex hafi verið handteknir í Varberg og Stokkhólmi.

Olofsson hefur setið um helming ævi sinnar á bak við lás og slá. Hann hefur verið dæmdur fyrir ýmiskonar brot, þar á meðal morðtilraun, fíkniefnabrot og bankarán. Kunnastur er hann líklega fyrir aðild sína að svonefndu Norrmalmstorgráni árið 1973. Vinur hans, Janne Olsson reyndi að ræna þar banka en það mistók. Hann tók þá starfsfólk og viðskiptavini bankans í gíslingu og krafðist þess að lögregla kæmi með Olofsson í bankann.

Eftir nokkurra daga umsátur gáfust þeir Olsson og Olofsson upp en nokkrir gíslanna virtust taka málstað ræningjanna. Fræðimenn hafa síðan talað um svonefnt Stokkhólmsheilkenni þegar gíslar fá samkennd með ræningjunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert