Að minnsta kosti 13 lögreglumenn og óbreyttir borgarar létu lífið í síðustu viku í Afganistan í árásum ISAF, alþjóðlega herliðsins, sem þar er undir stjórn NATO. Þannig létu fjórir lögreglumenn og fimm óbreyttir borgarar lífið í loftárás, sem gerð var fyrir mistök í Farahhéraði, að því er kemur fram á fréttavef breska ríkisútvarpsins, BBC.
Þá tilkynnti alþjóðlegi herinn að fjórir óbreyttir borgarar hið minnsta hefðu látið lífið fyrir mistök í Paktikahéraði.
Hamid Karzai, forseti Afganistans, hefur sagt að mannfall í röðum óbreyttra borgara sé óviðunandi. Búist er við að hann eigi fund með bandaríska forsetaframbjóðandanum Barack Obama, sem er í Afganistan ásamt fleiri öldungadeildarþingmönnum.