Níu manns bíða þess að vera grýtt til bana

Að minnsta kosti átta konur og einn karlmaður bíða þess að vera grýtt til bana í Íran.  Konurnar, sem eru á aldrinum 27 til 43 ára, voru dæmdar fyrir vændi, sifjaspell, og framhjáhald.  Karlmaðurinn, sem er fimmtugur tónlistarkennari, var dæmdur fyrir að hafa átt kynferðislegt samband við nemanda sinn, að því er fram kemur á fréttavef BBC.  Lögmenn fólksins hvetja dómstóla í landinu til þess að koma í veg fyrir að dómarnir verði framkvæmdir.

Í fyrra gagnrýndu alþjóðlegir mannréttindahópar og Evrópusambandið harðlega síðustu opinberu grýtinguna.  Amnesty samtökin hafa hvatt Írani til þess að afnema slíkar refsingar og segja að margir þeirra sem eru dæmdir til grýtingar hafi fengið óréttlát réttarhöld.  Á fréttavef BBC kemur fram að mun fleiri konur eru dæmdar til dauða með grýtingu en karlmenn.   Árið 2002 samþykktu írönsk stjórnvöld að leggja þessa refsingu af, en að minnsta kosti þrír einstaklingar hafa verið grýttir til bana síðan þá.

Í Íran er framhjáhald glæpur sem varðar við dauðadóm.  Refsilög Írans segja til um að karlmenn, sem hafa verið sakfelldir fyrir framhjáhald, skuli grafnir í jörðu upp að mitti og konur upp að brjóstkassa, áður en grýting hefst.  Þá er tekið fram að steinarnir eigi ekki að vera svo stórir að einstaklingurinn láti lífið við fyrsta kast.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka