Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, segir að Bretar séu staðráðnir í því að koma í veg fyrir að Íranar smíði kjarnorkuvopn. Brown lét ummælin falla er hann ávarpaði ísraelska þingið í dag.
Brown segir að ummæli Mahmoud Ahmadinejads Íransforseta um að Ísrael yrði þurrkað út af kortinu hafi verið viðurstyggileg, að því er fram kemur á fréttavef BBC.
Þá segir hann að írönsk stjórnvöld verði að hverfa frá kjarnorkuáætlun sinni, ellegar eiga í hættu á því að einangrast enn frekar.
Brown segir Breta reiðubúna til að taka frumkvæði í því að beita Írana frekari refsiaðgerðum. Þá segir hann að Bretar muni standa með Ísraelum í „baráttunni fyrir frelsi“.
Þetta er í fyrsta sinn sem forsætisráðherra Bretlands ávarpar ísraelska þingið. Heimsókn hans til Ísraels er lokadagur þriggja daga heimsóknar Browns til Mið-Austurlanda.