Rice aðvarar Írana

Condoleezza Rice.
Condoleezza Rice. Reuters

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að Íranar verði beittir frekari refsiaðgerðum virði þeir að vettugi tveggja vikna frest sem þeir hafa til að binda enda á kjarnorkutilraunir sínar. Hún sakar írönsk stjórnvöld um að reyna tefja málið vísvitandi.

Rice segir að Íranar verði að gefa „alvöru svar“ innan tveggja vikna, en það er frestur sem Bandaríkin, Bretland, Rússland, Kína, Frakkland og Þýskaland hafa gefið. Verði Íranar við kröfunni um að hætta að auðga úran þá munu þeir hljóta efnahagslega og tæknilega aðstoð.

„Við erum í mjög góðri stöðu til að sýna fram á að ef Íranar bregðast ekki við þá munum við snúa aftur á þessa braut [refsiaðgerða],“ sagði Rice. Á laugardag tóku Bandaríkin þátt í kjarnorkuviðræðum með Írönum í Genf í Sviss. Hingað til hafa Bandaríkin ekki viljað funda með Írönum. Auk sendifulltrúa frá Íran og Bandaríkjunum voru sendifulltrúar frá Bretlandi, Þýskalandi, Frakklandi, Rússlandi og Kína viðstaddir fundinn í Genf.

Saedd Jalili, aðalsamningamaður Írana í kjarnorkumálum, segir að Íranar muni ekki hætta kjarnorkutilraunum sínum. Vesturveldin óttast að Íranar séu að smíða kjarnorkustprengjur en Íranar segja hins vegar að kjarnorkuáætlun þeirra sé í friðsömum tilgangi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert