Saksóknarar við stríðsglæpadómstólinn í Haag hafa fagnað handtöku Radovan Karadzic, fyrrum leiðtoga Bosníu Serba og eftirlýsts stríðsglæpamanns. Þeir segja handtökuna marka tímamót.
Karazic hefur verið færður fyrir stríðsglæpadómstólinn í Belgrad. Að sögn serbnesku forsetaskrifstofunnar þýðir það að hann verður brátt framseldur.
Embættismenn hafa ekki gefið nákvæmar upplýsingar um handtöku hans, en það verður gert eftir að saksóknarar, lögreglan og leyniþjónustumenn hittast í Belgrad til að fara yfir málið í dag
Boris Tadic, forseti Serbíu, greindi frá því að serbenskir leyniþjónustumenn hafi handtekið Karadzic í gærkvöld. Karadzic hefur verið eftirlýstur í meira en áratug.
Heimildarmenn innan serbnesku ríkisstjórnarinnar sögðu við Reuters-fréttastofuna að Karadzic hafi verið undir eftirliti í nokkrar vikur eftir ábendingu frá erlendri leyniþjónustu.
Þungvopnaðir sérsveitarmenn voru staðsettir fyrir utan stríðsglæpadómstólinn í Belgrad þegar Karadzic var fluttur þangað vegna ótta við viðbrögð þjóðernissinna, sem líta á Karadzic sem hetju.