Dómari í Belgrad sagðist í morgun hafa fyrirskipað, að Radovan Karadžic, fyrrum leiðtogi Bosníu-Serba, verði afhentur Stríðsglæpadómstóli Sameinuðu þjóðanna í Haag. Lögmaður Karadžic segir, að úrskurðinum verði áfrýjað en áfrýjunarfrestur er 3 sólarhringar.
Karadžic var handtekinn í gær nálægt Belgrad. Serbnesk stjórnvöld segja að hann hafi starfað á heilsugæslustöð undir fölsku nafni.
Er Karadžic var handtekinn var hann í dulargervi og hafði meðal annars sítt, hvítt hár og skegg og bar gleraugu. Serbneskur embættismaður sagði, að Karadžic hefði starfað á heilsuhæli þar sem stundaðar eru óhefðbundar lækningar. Karadžic er geðlæknir að mennt.