Ríkisstjórn Indlands hélt velli

Þingmaður gengur fram hjá sjónvarpsskjám þar sem úrslitin í atkvæðagreiðslunni …
Þingmaður gengur fram hjá sjónvarpsskjám þar sem úrslitin í atkvæðagreiðslunni sjást. Reuters

Ríkisstjórn Indlands hélt velli í atkvæðagreiðslu í indverska þinginu í dag þar sem fjallað var um kjarnorkusamvinnusamning við Bandaríkin.

Þetta þýðir, að indversk stjórnvöld geta staðfest umdeildan   kjarnorkusamvinnusamning við Bandaríkin. Hefði vantrauststillagan verið felld og stjórnin fallið var ljóst að samningurinn yrði ekki efndur. Samningurinn snýst um, að Indverjar fá að halda kjarnorkuvopnum sínum og geta keypt búnað og kjarnorkueldsneyti af Bandaríkjamönnum. Á móti fá eftirlitsmenn Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar að rannsaka kjarkorkuver og annan kjarnorkubúnað á Indlandi.

Mikil óvissa hefur ríkt í indverskum stjórnmálum undanfarna daga þar sem alls ekki var ljóst hver úrslit yrðu í atkvæðagreiðslunni. Ríkisstjórnin hefur beitt ýmsum ráðum til að tryggja sér stuðning þingmanna. Þannig var m.a. flugvöllur nefndur eftir föður eins þingmanns, annar fékk loforð um mikilvægt embætti. Þá fullyrða stjórnarandstæðingar, að margir þingmenn hafi fengið háar fjárhæðir úr ríkissjóði.

Þá var þingmanni, sem er sjúkur, ekið í þingsalinn á sjúkrabörum svo hann gæti greitt atkvæði. Fjórum þingmönnum, sem afplána dóma fyrir morð og fjárkúgun, var sleppt tímabundið úr fangelsi svo þeir gætu tekið þátt í atkvæðagreiðslunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert