Hitabeltisstormurinn Dolly stefnir nú að suðurhluta Texas og að sögn bandarískra veðurfræðinga er talið að Dolly verði orðinn að fellibyl áður en hann gengur á land nærri landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna síðar í þessari viku.
Vindhraðinn Dolly mælist nú vera um 24 metrar á sekúndu. Hitabeltisstormurinn myndaðist við Yucatan-skaga í hlýjum sjó í Mexíkóflóa. Búið er að gera viðvart um að fellibylur gæti gengið á land á suðurhluta Texas.
Talið er að Dolly gangi á land á miðvikudag nærri landamærabænum Brownsville, sem er fjarri viðkvæmum olíusvæðum.
Síðast gekk hvirfilbylur á land í Bandaríkjunum í nóvember árið 2007, en það var fellibylurinn Humberto. Annars hafa Bandaríkin sloppið að mestu við fellibyli undanfarin tvo fellibyljatímabil.
Árin 2004 og 2005 urðu þau hins vegar illa úti þegar öflugir fellibyljir, m.a. fellibylurinn Katrín, gengu yfir Flórída og strandlengjuna sem liggur við Mexíkóflóa.