ESB vill banna viðskipti með selaafurðir

Selveiðar við Kanada.
Selveiðar við Kanada. Reuters

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins leggur til að sett verði viðskipta- og innflutningsbann á afurðir úr selum, sem veiddir eru með ómannúðlegum aðferðum. Bannið myndi einkum beinast gegn Kanada en þar segja dýraverndunarsamtök að ómannúðlegustu aðferðunum sé beitt við veiðarnar. 

Kanadískir selveiðimenn nota oddhvassar kylfur eða haka og riffla til að drepa seli.

Samkvæmt tillögum framkvæmdastjórnarinnar má versla með selaafurðir frá löndum sem geta sýnt fram á að veiðiaðferðir þar séu í samræmi við ýtrustu dýraverndarkröfur og að dýrin þjáist ekki ónauðsynlega. 

Dýraverndarsamtök hafa lengi barist fyrir því að Evrópusambandið takmarki innflutning á selaafurðum. Slíkt er hins vegar ekki einfalt ef komast á hjá kvörtun frá Kanada og öðrum selveiðiþjóðum til Alþjóða viðskiptastofnunarinnar. 

Kanada segir, að innflutningsbann gæti brotið gegn viðskiptasamningum og hefur hótað aðgerðum, verði slíkt bann að veruleika.

Stavros Dimas, sem fer með umhverfismál í framkvæmdastjórn ESB, sagðist í dag vona að bannið tæki gildi áður en veiðitímabilið hefst á austurströnd Kanada á næsta ári. Öll aðildarríki ESB og Evrópuþingið verða að samþykkja bannið.

Dimas sagði, að skrifstofa hans hefði fengið þúsundir bréfa og tölvupósta, aðallega frá Bretlandi, Bandaríkjunum og Kanada, þar sem þess er krafist að gripið verði til aðgerða gegn selveiðum Kanadamanna. 

Franska leikkonan Brigitte Bardot, sem lengi hefur barist gegn selveiðum, sagði við AP fréttastofuna í dag að nú væri sigur í augsýn í 30 ára langri baráttu.

Kanada flutti selaafurðir fyrir um 3,45 milljónir evra, jafnvirði um 430 milljóna króna, til Evrópusambandsins árið 2006. Afurðirnar eru einkum skinn, lýsi og kjöt. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert