Verjandi Radovan Karadzic, fyrrum leiðtoga Bosníu-Serba, segir að hann muni áfrýja því að Karadzic verði framseldur til stríðsglæpadómstólsins í Haag, en hann er sakaður um þjóðarmorð og glæpi gegn mannkyninu.
Nokkur hundruð þjóðernissinna komu saman á götum Belgrad í gærkvöldi til að mótmæla handtöku Karadzics. Hrópaði fólkið, að Karadzic væri hetja en ekki glæpamaður.
Fram kemur á fréttavef BBC að Karadzic, sem var handtekinn í Serbíu á mánudag, hafi þrjá daga til að áfrýja framsali sínu til Haag.
Haft er eftir Vuk Jeremic, utanríkisráðherra Serbíu, að handtaka Karadzic sýni fram á að Serbar hafi fullan hug á því að gerast aðilar að Evrópusambandinu og takast á við skuldbindingar sambandsins. Aðeins er um hálfur mánuður frá því ný Evrópusambandssinnuð ríkisstjórn tók við völdum í landinu.
Karadzic, sem er 63ja ára, var yfirheyrður af serbneskum dómara í gær, en hann úrskurðaði að framselja ætti Karadzic til Haag. En sem fyrr segir hyggst verjandi Karadzic áfrýja þeim úrskurði. Hann segist ekki eiga von á því að áfrýjunin verði tekin gild.