Límdi sig við forsætisráðherrann

Dan Glass límir sig þarna við forsætisráðherrann, Gordon Brown.
Dan Glass límir sig þarna við forsætisráðherrann, Gordon Brown. Plane Stupid

Baráttumaður andvígur þriðju flugbrautinni við Heathrow flugvöll límdi sjálfan sig við Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, í móttöku í Downing Street í gær. Verið var að veita baráttumanninum verðlaun fyrir mótmæli.

Fréttavefur BBC greinir frá því að mótmælandinn, Dan Glass, sem tilheyri hópnum Plane Stupid, hafi verið við það að fá viðurkenningu frá forsætisráðherranum þegar hann rétti út hönd sína og skellti henni á jakkaklæddan handlegg forsætisráðherrans. Áður hafði hann sett sterkt lím á höndina.

Á heimasíðu samtakanna Plane Grass er nánari lýsing á atburðinum. þar segir að Glass hafi spurt forsætisráðherrann hvers vegna hann og aðrir ráðherrar í ríkisstjórn neituðu að hitta þá íbúa í Vestur Londonsem eru mótfallnir byggingu þriðju flugbrautarinnar við Heathrow flugvöll. Á sama tíma setti hann höndina á ermi Brown. Þegar Brown sneri sér við og ætlaði að ganga í burtu komst hann að því að hann var fastur við Glass. Það var því ekki um annað að ræða en stansa, losa hönd Glass og hlusta þar með á hann eða fara úr jakkanum. Brown valdi fyrri kostinn.

Downing Street gerði lítið úr atburðinum sem var um hálf sjö leytið í gær.

Talsmaður Plane Stupid sagði að Dan Glass sem er 24 ára nemi við Strathclyde háskóla hefði smyglað gegnum öryggiseftirlitið við Downing Street litlu magni af sterku lími með því að fela það í nærfötum sínum.

Talsmaður Downing Street staðfesti að atvik hefði átt sér stað en neitaði því að maðurinn hefði límt sig við forsætisráðherrann.

„Það getur verið að það hafi verið eitthvað límkennt á höndum hans en hann snerti ekki forsætisráðherrann nema í nokkrar sekúndur,“ segir talsmaður. „Engin veruleg límin átti sér stað.“ Hann bætti svo við að þetta hefðu ekki verið alvarleg mótmæli heldur glens.

Glass sagði eftir atburðinn að hönd sín hefði verið þakin sterku lími og að hún hefði límst við ermi Browns.

„Ég límdi sjálfan mig bara við hann og eftir svona 20 sekúndur reif hann hönd mína frá. Það var mjög sárt. Hann varð að rykkja nokkrum sinnum áður en það tókst. Hann brosti allan tímann. Hann virtist ekki taka mig alvarlega.“

Glass var leyft að dveljast í Downing Street í 40 mínútur eftir atvikið. Eftir að hann yfirgaf húsið reyndi hann að líma sig við hlið þess en lögreglumaður losaði hönd hans af hliðinu.

„Ég átti ekki mikið lím eftir,“ segir hann.

Glass var boðið að Downing Street til að taka á móti verðlaunum frá Sheila McKechnie sjóðnum fyrir mótmælastarf það sem hann hefur unnið með Plane Stupid.

Lögreglan neitaði því að neinar öryggisreglur hefðu verið brotnar.

Heimasíða Plane Stupid.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka