Radko Mladic, sem er eftirlýstur fyrir stríðsglæpi, veitti leyniþjónustumönnum upplýsingar um hvar Radovan Karadzic héldi sig. Með þessu vildi hann vinna tíma í samningaviðræðum um eigið framsal. Breska blaðið Daily Telegraph hefur þetta eftir ónafngreindum þýskum leyniþjónustumönnum.
Telegraph segir, að búist sé við því að Mladic, sem var herstjóri Bosníu-Serba þegar Karadzic var leiðtogi þeirra, verði handtekinn á næstu vikum. Hann hefur farið huldu höfði í rúman áratug en sér nú fram á að geta ekki lengur dulist.
Blaðið hefur eftir þýskum leyniþjónustumönnum, að Mladic hafi undanfarið átt í samningaviðræðum við þá sem leita hans um á hvaða forsendum hann gefi sig fram. Hann hafi veitt upplýsingar um Karadzic til að bjarga eigin skinni, líklega fyrir nokkrum mánuðum.
Mladic vonast til þess, að sleppa við réttarhöld fyrir stríðsglæpadómstóli SÞ í Haag. Þess í stað vill hann svara til saka fyrir dómstóli í Serbíu þar sem ýmsir líta enn á hann sem hetju. Stríðsglæparéttarhöld hófust í Belgrad árið 2004. Á síðasta ári voru m.a. fjórir menn, sem tóku þátt í fjöldamorðunum í Srebrenica í Bosníu dæmdir í samtals 58 ára fangelsi. Karadzic og Mladic eru ákærðir fyrir að bera ábyrgð á því fjöldamorði.
Karadzic ætlaði að gefa sig fram á næsta ári
Svetozar Vujacic, lögmaður Karadzics, segir í viðtali við fréttavef þýska tímaritsins Spiegel í dag, að skjólstæðingur sinn hafi ætlað að gefa sig fram við serbnesk stjórnvöld á næsta ári. Þá hefði hann getað varið sig sjálfur fyrir serbneskum dómstóli. Lögmaðurinn segir, að Karadzic ætli að stýra vörn sinni sjálfur fyrir dómstólnum í Haag en njóta ráðgjafar 4-5 lögmanna.
Ríkisstjórn Serbíu sagði, að Karadzic hefði verið handtekinn síðdegis á mánudag en Vujacic heldur því fram að handtakan hafi farið fram á föstudag. Vujacic segist hafa verið að snæða kvöldverð með Luk, bróðir Karadzics, á föstudagskvöld, þegar þeir fengu fréttir af því að Karadzic hefði verið handsamaður.
Radovan Karadzic er sagður hafa sagt bróður sínum, að hann hafi verið handtekinn í rútu á leið frá Belgrad til Batajnica. Þaðan ætlaði hann til Vrnik í nokkurra daga meðferð í heilsurækt. Hann var með sundskýlu og baðkápu í tösku þegar hann handtekinn.
Lögmaðurinn segir aðspurður, að serbnesk stjórnvöld hafi beðið með að tilkynna um handtöku Karadzics svo þeim gæfust tók til að koma sérsveitarmönnum fyrir víða um landið til að koma í veg fyrir hugsanlegar óeirðir.