John McCain, forsetaframbjóðandi repúblikana í Bandaríkjunum, gagnrýnir þarlenda fjölmiðla harðlega og segir þá eiga í ástarsambandi við Barack Obama, frambjóðanda demókrata. Könnun, sem birt var í gær, leiddi í ljós að meirihluti kjósenda telur að bandarískir fréttamenn séu að reyna að aðstoða Obama í kosningabaráttunni.
Þessari skoðun hefur vaxið fiskur um hrygg síðustu daga en mikill fjöldi fréttamanna fylgir nú Obama á ferð hans um Miðausturlönd og Evrópu. Á sama tíma sýna fjölmiðlar McCain lítinn áhuga.
Framboð McCains hefur birt tvö myndskeið á netinu þar sem ýmsir fréttamenn sjást hæla Obama. Þá hefur framboðið sent blaðamönnum netpóst þar sem segir m.a: „ Það er dagljóst að fjölmiðlar eru hugfangnir af Barack Obama. Sumir kynnu að kalla það ástarsamband... Ef þetta væri ekki svona alvarlegt mál væri það jafnvel fyndið."