Lögreglan í Sjanghaí í Kína hefur upprætt hóp hryðjuverkamanna sem ætluðu sér að gera árás á ólympískan knattspyrnuleikvang í borginni. Frá þessu greinir kínverska ríkisfréttastofan Xinhua.
„Við höfum fengið upplýsingar um að alþjóðleg hryðjuverkasamtök hafi líklega ætlað að gera árás á Ólympíuleikvang í borginni á meðan leikarnir standa yfir,“ hefur Xinhua eftir Cheng Jiulong, sem hefur yfirumsjón með öryggismálum á Ólympíuleikunum.
Hann segir lögregluna hafa brugðist við, gert áhlaup og handtekið meinta hryðjuverkamenn.
Ekki liggur fyrir hve margir hafa verið handteknir og þá er ekki vitað hvar aðgerðir lögreglu áttu sér stað.