Dómari frá Suður Afríku, Navanethem Pillay, var í dag tilnefnd sem næsti mannréttindastjóri Sameinuðu Þjóðanna. Hún starfar nú sem dómari við stríðsglæpadómstólinn í Haag.
Ritari SÞ, Ban Ki-moon, sagði í dag að Pillay hefði einstakt orðspor á sviði réttlætis og mannréttinda.
Navanethem Pillay hefur lagagráðu frá Harvard og hefur unnið við stríðsglæpadómstólinn í Haag sem áfrýjunardómari frá 2003. Dómarinn, sem er kölluð Navi, er fædd 1941 og er af tamílskum uppruna.
Tilnefning hennar fer nú fyrir allsherjarþing SÞ sem þarf að samþykkja tilnefninguna. Þingið valdi hana sem dómara við alþjóða stríðsglæpadómstólinn fyrir Rwanda árið 1995 og varð hún forseti dómstólsins 1999.
Ef Pillay verður samþykkt mun hún hafa aðsetur í Genf. Embættið fer ört vaxandi og hefur nú um eitt þúsund starfsmenn og fjárlög upp á 120 milljónir bandaríkjadala.
Bandaríkin hafa orðað efasemdir um hæfni Pillay til starfans og nefnt stuðning hennar við rétt kvenna til fóstureyðinga og getnaðarvarnir. Sömuleiðis hafa þau efasemdir um hæfni hennar til að stýra næsta ráðstefnu SÞ um kynþáttahatur sem mun verða í Durban í Suður Afríku. Fyrri ráðstefnan, sem haldin var árið 2001, vakti nokkrar deilur vegna viðhorfa sem komu þar fram og voru andsnúin Ísrael og gyðingum.
Sumir mannréttindahópar hafa einnig dregið í efa að hún verði jafn harðorð og fyrirrennari hennar, Louise Arbour.
Árið 1967 varð Pillay fyrsti kvenlögfræðingurinn sem stofnaði sína eigin stofu í Natal héraði í Suður Afríku. Hún tók þar að sér að verja andstæðinga aðskilnaðarstefnunnar. Hún var einnig fyrsta þeldökka konan sem fékk sæti í Hæstarétti Suður Afríku.
Henni er líka eignaður heiður af því að hafa flett ofan af pyntingum og einangrun fanga í haldi lögreglu aðskilnaðarstefnunnar. Sömuleiðis að hafa komið á réttindum fyrir fanga á Robben eyju, þar sem Nelson Mandela og aðrir baráttumenn fyrir afnámi aðskilnaðarstefnunnar voru í haldi. Þá er hún meðstofnandi Equality Now sem er alþjóðleg baráttuhreyfing fyrir kvenréttindum, með aðsetur í New York.