Sviss fær ekki olíu frá Líbýu

Muammar Gaddafi, leiðtogi Líbýumanna.
Muammar Gaddafi, leiðtogi Líbýumanna. Reuters

Olíuútflutningsfyrirtæki í Líbýu sagðist í morgun hafa hætt að senda olíu til Sviss til að mótmæla því að Hannibal, yngsti sonur Moammars Gaddafis, leiðtoga Líbýu, var handtekinn nýlega í Genf ásamt eiginkonu sinni. Svisslendingar fá stærstan hluta þeirrar hráolíu, sem þeir nota, frá Líbýu.

Útflutningsfyrirtækið er í eigu líbýska ríkisins. Ali Bilhajj Ahmed, forstjóri fyrirtækisins segir að þessar aðgerðir séu það minnsta, sem hægt er að gera. Hann sagði, að viðskiptin við Sviss væru um 40% allra viðskipta fyrirtækisins.

Hannibal, sem er 32 ára, og eiginkona hans voru í haldi lögreglu í Genf í tvo sólarhringa um miðjan mánuðinn en kærur bárust á hendur þeim um að þau hefðu misþyrmt tveimur úr starfsliði þeirra þar sem þau dvöldu á lúxushóteli í borginni. Kona Hannibals er komin langt á leið. Þau hjón eiga yfir höfði sér ákæru fyrir líkamsárás og hótanir. Þau neita sök.

Utanríkisráðuneyti Sviss sendi í gær stjórnvöldum í Líbýu formleg mótmæli vegna refsiaðgerða, sem Líbýustjórn virðist hafa gripið til vegna málsins. Í yfirlýsingu frá ráðuneytinu kom fram að svissnesku fyrirtækjunum ABB og Neslé hafi verið skipað að loka skrifstofum sínum í Líbýu og svissneskt starfsfólk þar í landi hafi verið handtekið. Þá hafi Líbýumenn fækkað áætlunarflugum milli landanna, hætt að veita svissneskum ríkisborgurum vegabréfsáritanir til landsins og kallað sendiráðsstarfsmenn heim frá Sviss.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert