Rúmlega 20 manns særðust þegar yfir 40 manns, margir vopnaðir kylfum og hnífum, réðust á gistiheimili fyrir hælisleitendur í Noregi. Enginn er alvarlega sár, en flytja varð 10 á slysadeild.
Árásin átti sér stað í miðbæ Våler, sem er um 60 km suður af Ósló. Fram kemur að átökin hafi brotist út í kjölfar deilna milli tveggja hópa hælisleitenda. Lögreglan rannsakar málið.
Um 200 flóttamenn frá Írak, Afganistan, Íran, Rússlandi, Sómalíu og Erítreu gista á Nordbybråte-gistiheimilinu.
Fram kemur í norskum fjölmiðlum að Tsétsenar hafi tekið þátt í átökunum við múslíma, en um trúardeilur er að ræða.