Saksóknari yfirheyrði Radovan Karadzic í dag um smáatriði varðandi handtöku hans. Karadzic berst gegn því að verða framseldur til stríðsglæpadómstólsins.
Karadzic hefur þar til á miðnætti í kvöld til að leggja fram áfrýjunarbeiðni gegn því að verða framseldur til stríðsglæpadómstólsins í Haag.
Lögfræðingur Karadzic segir að þegar dómstóll hefur fengið áfrýjunarbeiðni hans í hendurnar muni dómarar fara yfir hana og kveða upp úrskurð. Eftir það mun mál hans fara fyrir ríkisstjórn Serbíu sem gefur út framsalsskipunina.
Lögfræðingurinn, Sveta Vujacic, sagði í dag að hann myndi póstleggja áfrýjunarbeiðnina fimm mínútum áður en pósthús loka sem er klukkan átta, eða sex að okkar tíma. Þetta er gert í þeim tilgangi að tefja framsalsmálið eins og mögullegt er. Hann spáði því að Karadzic myndi ekki verða framseldur fyrir miðvikudag.
Lögfræðingurinn hefur lagt fram kæru á hendur þeim sem rændu Karadzic. Það var vegna kærunnar sem saksóknari talaði við Karadzic í dag. Lögfræðingurinn heldur því fram að Karadzic hafi verið rænt í síðustu viku og haldið í þrjá sólarhringa. Stjórnvöld segja hins vegar að hann hafi verið handtekinn í fyrradag.