McCain hæðist að Obama

John McCain, forsetaframbjóðandi bandarískra repúblíkana, með eiginkonu sinni Cindy.
John McCain, forsetaframbjóðandi bandarískra repúblíkana, með eiginkonu sinni Cindy. AP

Frambjóðandi Repúblikana til forsetakosninganna, John McCain, hæddist að Barack Obama í dag fyrir skoðanir hans á Írak. Hann sagði að stríð hefði brotist út um gervöll miðausturlönd hefði bandarískt herlið verið kallað til baka eins og andstæðingur hans hefði viljað.

McCain sagði þetta í dag í ræðu sem hann flutti fyrir spænskættaða fyrrverandi hermenn.  Hann sagði að ef skoðanir Obamas um að senda ekki fleiri hermenn til Írak þegar liðsflutningarnir sem McCain studdi áttu sér stað, þá hefði það leitt til ósigurs þar og í Afganistan.

„Við höfnuðum þessari áræðni vonleysis,“ sagði hann og vísar til bókar Obamas: Áræðni vonar, eða The Audacity of Hope.

McCain dró upp svarta mynd hefði Obama getað komið í veg fyrir þann aukna liðsafla sem forseti landsins, George W. Bush, hefði sent til Íraks: Bandaríkjamenn hefðu hörfað í kúlnaregni, íraski herinn hefði hrunið, óbreyttir borgarar hefðu dáið í hrönnum, þjóðarmorð, borgarastyrjöld og fleira.

„Og síðast en ekki síst,“ sagði McCain, „Bandaríkin hefðu veikst og þau verið niðurlægð. Hryðjuverkamenn hefðu séð þetta sem sönnun þess að okkur skortir viljann til að sigra þá. Írak hefði logað í átökum og önnur lönd á svæðinu hefðu farið að styðja mismunandi fylkingar, nokkuð sem hefði steypt miðausturlöndum í stríð.“

Varðandi það að aukning heraflans hefði verið óvinsæl meðal flestra Bandaríkjamanna sagði McCain: Obama sagði bandarísku þjóðinni það sem hann taldi að hún vildi heyra. Ég sagði ykkur sannleikann.

Obama vill nú að herliðið verði kallað til baka á sextán mánuðum. McCain hefur gagnrýnt þetta harðlega og sagði meðal annars í vikunni að Obama væri tilbúinn að tapa stríði til þess að vinna í kosningum.

McCain hefur verið nokkuð í skugga Obamas þessa vikuna en Obama ferðast nú um Evrópu og fær hverja fyrirsögnina á fætur annarri í fjölmiðlum. McCain tókst þó engu að síður að safna nokkrum milljónum bandaríkjadala til kosningabaráttu sinnar á fundum í vikunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert