Svikara Karadzic leitað

Radovan Karadzic eftir að hann var handtekinn um síðustu helgi.
Radovan Karadzic eftir að hann var handtekinn um síðustu helgi. HO

Sveta Vujacic Vujacic, lögmaður Radovan Karadzic fyrrum leiðtoga Bosníu Serba, segir hann ætla að leggja fram kæru gegn þeim sem hafi rænt Karadzic og vísar þar til handtöku hans um síðustu helgi.

Í Serbíu veltir fólk því nú fyrir sér hverjir hafi aðstoðað Karadzic við að fara huldu höfði í þau þrettán ár sem hann hefur verið eftirlýstur og ekki síður því hver hafi svikið hann.

Samkvæmt því sem fram kemur á fréttavef Jyllands-Posten hefur Ivica Dacic, innanríkisráðherra landsins, m.a. verið nefndur í því sambandi en hann er einnig yfirmaður serbnesku lögreglunnar.

Dacic, sem er fyrrum flokksbróðir og áróðursmeistari Slobodan Milosevic fyrrum forseta Júgóslavíu og Serbíu, hefur lýst því yfir að lögreglan hafi ekki tekið þátt í handtöku hans. Margt þykir hins vegar benda til þess að hann hafi verið þvingaður af núverandi samherjum sínum í stjórn landsins til að fallast á handtöku og framsal Karadzic.

Aðrir benda á að þar sem svo virðist sem einungis Boris Tadic, forseti landsins, Sasa Vukadinovic, nýskipaður yfirmaður leyniþjóstunnar og nánustu trúnaðarmenn þeirra hafi vitað af fyrirhugaðri handtöku hans bendi til þess að upplýsingum hafi verið haldið frá Dacic og fleiri áhrifamönnum í aðdraganda handtökunnar.

Karadzic mun hafa lesið svo til stanslaust í Biblíunni frá því hann var handtekinn og einungis neytt vatns og heilhveitibrauðs.

Vujacic hefur áður greint frá því a hann muni póstleggja áfrýjun vegna fyrirhugaðs framsals hans fimm mínútum fyrir lokun pósthúsa í dag en með því vill hann freista þess að tefja framsalsferlið sem mest.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert