Blaðamenn breska blaðsins Sunday Mirror komu færandi hendi til Davids Camerons, leiðtoga Íhaldsflokksins, í gær. Þeir höfðu nefnilega meðferðis reiðhjól Camerons, sem var stolið þegar flokksleiðtoginn brá sér inn í matvöruverslun við Portobello Road til að kaupa í matinn á miðvikudag.
„Ég þakka ykkur kærlega fyrir. Þetta kemur mér verulega á óvart. Þetta er ótrúlegt, ég hélt að ég sæi hjólið aldrei aftur," hefur blaðið eftir Cameron. „Hjólið er ómetanlegt. Ég hef hjólað yfir þúsund mílur á því og tekið þátt í þremur hjólreiðakeppnum á því og það er því eins og gamall vinur í mínum huga."
Blaðamenn Sunday Mirror ákváðu að reyna að hafa upp á hjólinu. Þeir leituðu til Ernest Theophile, sjálfskipaðs félagsmálafulltrúa hverfisins. Þótt Theophile sé harður kjósandi Verkamannaflokksins og hafi eitt sinn skammað Cameron fyrir að hjóla á móti einstefnu, ræddi hann við nokkra unglinga og þeir sögðu honum hvar hjólið væri að finna.
Hjólið fannst liggjandi í hliðargötu ekki langt frá versluninni þar sem því var stolið. Framhjólið var raunar horfið en að öðru leyti var það heilt og hjálmur Camerons var á stýrinu. Sunday Mirror lét nýtt framhjól fylgja þegar hjólinu var skilað.
„Ég er hissa á að þeir tóku ekki hjálminn. Það hefði sennilega verið hægt að selja hann á eBay," sagði Cameron.