David Shark, talsmaður bandarísku sendinefndarinnar í Doha-viðræðunum sem nú standa yfir í Genf, gagnrýndi Indverja og Kínverja harðlega í morgun og sagði afstöðu þeirra stofna sjö ára vinnu, við gerð nýs heimsviðskiptasamnings, í hættu.
Shak sagði Bandaríkjamenn hafa kyngt mörgu og sætt sig við miklar málamiðlanir til að reyna að stuðla að því að samningur næðist um afnám hafta í viðskiptum með framleiðsluvörur og landbúnaðarafurðir.
Shark gagnrýndi hins vegar Indverja harðlega fyrir að hafna málamiðlunartillögu Pascal Lamy, framkvæmdastjóra Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og sakaði Kínverja um að falla frá samþykki ákvæða sem þeir hafi verið búnir að lýsta stuðningi við í síðustu viku.
„Framkoma þeirra hefur stefnt Doha viðræðunum í mestu hættu sem að þeim hefur steðjað undanfarin sjö ár.” Sagði Shark er hann ávarpað 153 fundarmenn í Genf í Sviss í morgun.
Samningar hafa hvað eftir annað strandað á ágreiningi ríkra og fátækari þjóða frá því Doha viðræðurnar voru hafnar í Katar árið 2001.
Vonir höfðu staðið til þess að samningar næðust í þessari viku sem m.a. fæli í sér lækkun tolla og niðurgreiðslna í landbúnaði og á framleiðsluvörum.
Góðar vonir þóttu til þess á föstudag að slíkt samkomulag gæti náðst á grundvelli málamiðlunartillögu Pascal Lamy og var viðræðunum því haldið áfram um helgina.
Tillögur hans fela meðal annars í sér að ríkisstyrkir til landbúnaðar í Evrópu verði lækkaðir um 80% og í Bandaríkjunum um 70%, auk lækkunar tolla á innflutning landbúnaðar- og iðnaðarvara.
Shark segir nú að Indverjar og Kínverjar krefjist þess hins vegar að fá undanþágur sem geri það að verkum að þeir geti hækkað niðurgreiðslur á útflutningsvörur í stað þess að lækka þær eins og stefnt hafi verið að. Þá sakar hann Indverja og Kínverja um að nýta sér stuðning enn fátækari þjóða í eiginhagsmunaskyni en Kúba, Haíti, Indónesía, Filippseyjum, Venesúela eru á meðal 30 ríkja sem styðja Indverja og Kínverja í málinu.