Lögregla á Ítalíu handtók um helgina Adriano Graziano, sem talinn er vera einn helsti leiðtogi Camorra mafíunnar í Napólí. Graziano, sem gjarnan er nefndur Prófessorinn, var handsamaður þar sem hann var að kaupa sér föt í bænum Valmontone, skammt frá Róm.
Graziano er grunaður um fjölda glæpa, allt frá fjárkúgun til morða.
Camorra eru glæpasamtök í Napólí og nágrenni, sem svara til mafíunnar á Sikiley. Samtök Grazianos hafa m.a. átt í blóðugum átökum við aðra glæpaflokka, sem náðu hámarki árið 2002 þegar þrjár konur létu lífið í fyrirsát.