Ríkissaksóknari í Ísrael hefur verið hvattur til að rannsaka það hvort lög hafi verið brotin er miði sem Barack Obama, forsetaframbjóðandi bandarískra demókrata skildi eftir í Grátmúrnum, var fjarlægður þaðan og birtur í ísraelska blaðinu Ma’ariv.
Mikil reiði er vegna málsins í Ísrael en litið er á það sem óskráð lög að miðar sem skildir eru eftir í múrnum séu ekki fjarlægðir þaðan nema tvisvar á ári og þá brenndir ólesnir. Segja áhrifamiklir rabbínar að með því að fjarlægja miða Obama hafi persónulegu sambandi hans og Guðs verið sýnd ónærgætni og óvirðing.
Aðrir segja forsvarsmenn Ma’ariv bæði hafa brotið gegn persónufrelsi Obama og lögum um vernd helgistaða. Þá hafa nokkrir orðið til þess að hvetja fólk til að sniðganga blaðið þar til það hefur beðist afsökunar á málinu.
Í yfirlýsingu sem forsvarsmenn blaðsins hafa sent frá sér segir að Obama hafi veitt samþykki sitt fyrir því að það sem stóð á miðanum væri birt enda hafi hann sjálfur útvegað blaðamönnum afrit af honum. Þar sem hann sé ekki gyðingur sé heldur ekki um að ræða trúnaðarbrest eða virðingarleysi við samband hans og Guðs.
Obama hefur ekki tjáð sig um málið en bæn hans er afar almenn. Þar biður hann Guð um að halda verndarhendi yfir sér og fjölskyldu sinni og gefa sér visku til að breyta rétt.