Miklar rigningar hafa gengið yfir í Japan í morgun og valdið flóðum og aurskriðum. Snemma í morgun var um 50.000 manns fyrirskipað að yfirgefa svæðið í nágrenni borgarinnar Kanazawa í miðri Japan, en skipuninni hefur nú verið aflétt.
Í morgun flæddi yfir bakka Asano árinnar, og inn á götur borgarinnar, sem er um 300 kílómetra norðvestur af Tókýó. Talsmaður borgarinnar segir að slíkt úrhelli hafi ekki komið í mörg ár á svæðinu.
Meira en 800 manns gistu í samkomuhúsum borgarinnar, og yfir 500 heimili voru tímabundið án rafmagns. Talsvert tjón hefur orðið á húsnæði í borginni að sögn yfirvalda.