Ofursta í ísraelska hernum hefur verið tímabundið vikið frá störfum á meðan rannsókn stendur yfir á því er undirmaður hans skaut bundinn Palestínumann í fótinn af mjög stuttu færi. Myndbandsupptaka náðist af atvikinu þar sem sjá má hermanninn skjóta á Palestínumanninn þar sem hann stóð hreyfingarlaus með bundið fyrir augu. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Hermaðurinn mun hafa borið við yfirheyrslur að yfirmaður sinn hafi skipað sér að skjóta manninn og upphaflega sagði talsmaður Ísraelsher að svo virtist sem um misskilning mannanna hafi verið að ræða. Ekki heyrast hins vegar orðaskil á myndbandsupptökunni, sem palestínsk unglingsstúlka tók út um glugga heimilis síns í Nablus á Vesturbakkanum.
Óstaðfestar fréttir herma að ofurstinn Omri Borberg hafi ekki staðist lygapróf sem hann gekkst undir vegna atviksins. Sjálfur hélt Borberg um handlegg Palestínumannsins er á hann var skotið.