AKP-flokkurinn ekki bannaður

Flokkur Tayyips Erdogans, forsætisráðherra Tyrklands, slapp við bann.
Flokkur Tayyips Erdogans, forsætisráðherra Tyrklands, slapp við bann. Reuters

Stjórnlagadómstóll Tyrklands hefur ákveðið að banna ekki AKP-stjórnarflokkinn í landinu, sem er sakaður um að grafa undan hinu veraldlega stjórnkerfi landsins. Dómararnir ákváðu hins vegar að refsa flokknum með því að skera fjárlög hans niður um helming fyrir þetta ár.

AKP-flokkurinn, sem vann stórsigur í kosningunum í fyrra, hefur neitað þeim ásökunum að vilja koma á ríki íslamista í Tyrklandi. Flokkurinn segir málið vera árás á lýðræðið.

Fram kemur á fréttavef BBC að herinn í landinu líti á sjálfan sig sem verndara ríkisins sem byggir á hinu veraldlega skipulagi, sem Mustafa Kemal Ataturk stofnaði.

Forseti stjórnlagadómstólsins segir að flokkurinn eigi að líta á refsiaðgerðinar sem aðvörun sem beri að taka alvarlega.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert