Kínverskur kennari hefur verið sendur í vinnubúðir fyrir að birta myndir á netinu af barnaskólum sem hrundu í jarðskjálftanum sem reið yfir Sichuan hérað í Kína þann 12. maí. Skjálftinn mældist 7,9 á Richter og allt að 88.000 manns létu lífið og 9000 barna er enn saknað.
Að sögn mannréttindasamtakanna Human Rights in China var Liu Shaokun fangelsaður án réttarhalda og dæmdur til endurhæfingar í vinnubúðum í eitt ár fyrir að „valda óróa í þjóðfélaginu."
„Í stað þess að rannsaka og taka ábyrgð á óvönduðum skólabyggingum sem hrundu, grípa yfirvöld til þess að þagga niður í umhyggjusömum borgurum, með því að senda þá í vinnubúðir," segja samtökin.
Lögregla í borginni Guanghan, þar sem Liu var handtekinn, vildi ekki tjá sig um málið.