Lögreglan í Brasilíu hefur borið kennsl á lík séra Adelir Antonio de Carli sem saknað var eftir að hann reyndi að setja met í flugi með helíumfylltum blöðrum.
De Carli fór af stað í apríl frá hafnarborginni Paranagua og hengdi hann sig undir hundruð helíumblaðra til þess að safna fé fyrir nýrri kapellu. Blöðrurnar lyftu honum frá jörðu en að lokum sveif De Carli langt út á haf og missti GPS samband. Sjómenn fundu lík hans fyrr í mánuðinum, að því er fram kemur á fréttavef BBC.