Pattstaða á þingi

Olíupallur á Mexíkóflóa.
Olíupallur á Mexíkóflóa. Reuters

Pattstaða er komin upp á bandaríska þinginu um hvernig skuli bregðast við orkuvandamálum heima fyrir. Miklar deilur standa um hvort banni við neðansjávarborun skuli aflétt.

Tillaga Demókrata um hvernig skuli bregðast við olíuspákaupmennsku varð fórnarlamb bordeilunnar og var tillagan felld á fulltrúaþinginu. Munaði níu atkvæðum að hún væri samþykkt.

Tillaga í öldungadeildinni um sama málefni hefur verið tafin undarnfarnar tvær vikur af Repúblikönum sem krefjast atkvæðagreiðslu um önnur málefni tengd tillögunni, svo sem hvort létta skuli borunarbanninu á vernduðum svæðum. Óttast er að boranir valdi þar umhverfisspjöllum. Hafa sum svæðin verið vernduð í allt að 27 ár.

Tillaga fulltrúadeildarinnar hefði aukið völd eftirlitsaðila sem fylgjast með olíumörkuðum, fjölgað starfsfólki hjá embættinu og sett ný skilyrði fyrir viðskiptum. Markaðssérfræðingar hafa gagnrýnt spákaupmennskuna og sagt að hún eigi hlut í hinu himinháu olíuverði.

George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, hvatti í dag þingið, annan daginn í röð, til þess að aflétta borunarbanninu. Hann sagði að Demókratar væru að bregðast þjóðinni með því að neita að atkvæðagreiðsla færi fram um málið.

Hann sagði að bandaríska þjóðin væri eðlilega óánægð með leiðtoga Demókrataflokksins sem neituðu að koma með skynsamlegar lausnir. Hann viðurkenndi samt að yrði banninu aflétt væri það langtímalausn og myndi ekki lækka olíuverð.

Allt lítur út fyrir að þingi verði slitið í vikulok til að fara í fimm vikna sumarfrí, án þess að hafa gripið til neinna aðgerða vegna orkumála.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka