Fatah og Hamas stunda pyntingar

00:00
00:00

Bæði Fatah og Ham­as stunda pynt­ing­ar ef marka má nýja skýrslu mann­rétt­inda­sam­tak­anna Hum­an Rights Watch.  Mann­rétt­inda­brot­um hef­ur fjölgað mikið frá því að Ham­as tók yfir á Gaza.

Ný skýrsla mann­rétt­inda­sam­tak­anna Hum­an Rights Watch seg­ir að and­stæðar fylk­ing­ar í Palestínu, bæði á Gaza svæðinu og á Vest­ur­bakk­an­um, brjóti al­var­lega á mann­rétt­ind­um.

Skýrsl­an sem birt var í dag upp­lýs­ir um fjölda hand­taka tengda stjórn­mál­um, sviðsett­ar af­tök­ur og al­var­leg­ar bar­smíðar. Þetta fari fram í búðum sem Ham­as reki á Gaza strönd og Fatah á Vest­ur­bakk­an­um.

Samök­in segja að eft­ir að Ham­as tók yfir á Gaza hafi pynt­ing­um fjölgað veru­lega og tekið stökk und­an­farna daga.

Sam­tök­in biðja er­lenda stuðningsaðila Fatah og Ham­as að fara vand­lega yfir þessi mál og krefjast úr­bóta.

Síðan að sprengja grandaði fimm Ham­as liðum síðast­l­inn föstu­dag og einni fjög­urra ára stúlku hef­ur Ham­as hand­tekið um 200 manns grunaða um tengsl við Fatah. Mörg­um hef­ur verið sleppt og var tals­verður hluti þeirra pyntaður.

Þá rændu Ham­as liðar um hundrað stofn­an­ir tengd­ar Fatah, svo sem góðgerðarfé­lög og íþrótta­fé­lög. Marg­ar þess­ara stofn­ana voru reynd­ar alls ekki tengd­ar Fatah sér­stak­lega. Voru þær al­ger­lega hreinsaðar út, loft­kæl­ing var tek­in, tölv­ur, skrif­borð og öll skjöl.

Sem hefnd­araðgerð hef­ur Fatah hand­tekið um hundrað manns og vitað er um að minnsta kosti eitt staðfest til­vik um að fangi hafi verið pyntaður. Marg­ir hinna hand­teknu voru kenn­ar­ar og annað há­skóla­menntað fólk.

Kenn­ing­ar eru uppi um það að Ham­as hafi notað sprengju­árás­ina sem yf­ir­varp til að reyna að ganga á milli bols og höfuðs á Fatah á Gaza svæðinu.

Nán­ar á vef sam­tak­anna Hum­an Rights Watch.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert