Fatah og Hamas stunda pyntingar

Bæði Fatah og Hamas stunda pyntingar ef marka má nýja skýrslu mannréttindasamtakanna Human Rights Watch.  Mannréttindabrotum hefur fjölgað mikið frá því að Hamas tók yfir á Gaza.

Ný skýrsla mannréttindasamtakanna Human Rights Watch segir að andstæðar fylkingar í Palestínu, bæði á Gaza svæðinu og á Vesturbakkanum, brjóti alvarlega á mannréttindum.

Skýrslan sem birt var í dag upplýsir um fjölda handtaka tengda stjórnmálum, sviðsettar aftökur og alvarlegar barsmíðar. Þetta fari fram í búðum sem Hamas reki á Gaza strönd og Fatah á Vesturbakkanum.

Samökin segja að eftir að Hamas tók yfir á Gaza hafi pyntingum fjölgað verulega og tekið stökk undanfarna daga.

Samtökin biðja erlenda stuðningsaðila Fatah og Hamas að fara vandlega yfir þessi mál og krefjast úrbóta.

Síðan að sprengja grandaði fimm Hamas liðum síðastlinn föstudag og einni fjögurra ára stúlku hefur Hamas handtekið um 200 manns grunaða um tengsl við Fatah. Mörgum hefur verið sleppt og var talsverður hluti þeirra pyntaður.

Þá rændu Hamas liðar um hundrað stofnanir tengdar Fatah, svo sem góðgerðarfélög og íþróttafélög. Margar þessara stofnana voru reyndar alls ekki tengdar Fatah sérstaklega. Voru þær algerlega hreinsaðar út, loftkæling var tekin, tölvur, skrifborð og öll skjöl.

Sem hefndaraðgerð hefur Fatah handtekið um hundrað manns og vitað er um að minnsta kosti eitt staðfest tilvik um að fangi hafi verið pyntaður. Margir hinna handteknu voru kennarar og annað háskólamenntað fólk.

Kenningar eru uppi um það að Hamas hafi notað sprengjuárásina sem yfirvarp til að reyna að ganga á milli bols og höfuðs á Fatah á Gaza svæðinu.

Nánar á vef samtakanna Human Rights Watch.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka