Maður afhöfðaður í rútu í Kanada

Lögregla á vettvangi í Manitoba.
Lögregla á vettvangi í Manitoba. Reuters

Farþegi um borð í langferðabíl á leið yfir kanadísku slétturnar stakk sessunaut sinn til bana og skar af honum höfuðið með stórum veiðihníf, að því er haft er eftir sjónarvottum. Aðra farþega í rútunni sakaði ekki.

Rútan var á leið frá Edmonton til Winnipeg þegar einn farþeganna réðist á annan og stakk hann allt að 60 sinnum í brjóstið. Svo virðist sem mennirnir hafi ekki þekkst, og fórnarlambið hafi ekki átt í neinum útistöðum við árásarmanninn.

Atburðurinn átti sér stað sl. nótt.

Rútan var stöðvuð skammt frá Portage la Prairie í Manitoba þar sem lögreglan handtók árásarmanninn.

„Við heyrðum skyndilega hræðilegt öskur. Árásarmaðurinn stóð yfir manninnum með stóran veiðihníf og stakk hann hvað eftir annað í brjóstið,“ sagði einn farþeganna í rútunni við kanadíska ríkissjónvarpið.

Bílstjórinn stöðvaði rútuna og farþegarnir flýðu út, og komið var í veg fyrir að árásarmaðurinn kæmist út úr bílnum.

„Hann gekk rólega fram í rútuna og hélt á hnífnum og höfðinu, starði á okkur  og lét höfuðið falla í gólfið,“ sagði sjónarvotturinn. „Hann virtist alls ekki reiður ... frekar eins og vélmenni eða eitthvað.“

Að sögn farþega hafði fórnarlambið, sem var um tvítugt, verið í rútunni frá því ferðin hófst í Edmonton, en árásarmaðurinn, sem er um fertugt, komið um borð um klukkustund áður en hann lét til skarar skríða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert