Buckinghamhöll í Bretlandi hefur viðurkennt að vegna mistaka hafi rússneskur einkaþjónslærlingur unnið ólöglega í höllinni. Talsmaður hallarinnar segir að láðst hafi að sækja um rétt atvinnuleyfi fyrir lærlinginn, Igor Golovanov, þegar hann var ráðinn 2006.
Þegar mistökin komu í ljós var Golovanov sagt upp, en mælt verður með því að hann verði endurráðinn ef hann getur fengið rétt atvinnuleyfi, og sýnt þykir að ekki stafi af honum nein hætta.
Golovanov hefur verið búsettur í Bretlandi síðan 2000 og hefur landvistarleyfi.