Forseti Kína segir að nethindrunum verði aflétt

Reuters

Hu Jintao, forseti Kína segir, að þarlend stjórnvöld muni standa við þau loforð, sem veitt voru þegar Kínverjum var úthlutað ólympíuleikunum, þar á meðal að blaðamenn, keppendur og aðrir erlendir gestir fái óhindraðan aðgang að netinu meðan á leikunum stendur.

Hann sagði við hóp blaðamanna, sem eru í Peking vegna leikanna, að stjórnvöld og kínverska þjóðin hafi lagt hart að sér til að geta staðið við skuldbindingar sínar við alþjóðasamfélagið.

Bæði kínversk stjórnvöld og Alþjóða ólympíunefndin hafa síðustu daga sætt harðri gagnrýni frá mannréttindasamtökum og blaðamönnum, sem segja að ekki hafi verið staðið við loforð um úrbætur í mannréttindamálum og ekki hafi verið aflétt hömlum á netnotkun á ólympíusvæðinu.

Kevan Gosper, blaðafulltrúi Alþjóða ólympíunefndarinnar, sagði í vikunni að nefndarmenn hefðu gert samkomulag um að Kínverjar mættu áfram loka fyrir viðkvæm netsvæði en í morgun var komið annað hljóð í strokkinn. Sagði Gunilla Lindberg, varaforseti Alþjóða ólympíunefndarinnar, að málið hefði verið leyst á fundi nefndarmanna og kínversku ólympíunefndarinnar í gærkvöldi og netnotkun verði ótakmörkuð eins og verið hafi á fyrri leikum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka