Kjarnorkuhelt neðanjarðarbyrgi sem byggt var fyrir Erich Honecker, fyrrverandi leiðtoga Austur-Þýskalands, hefur verið opnað almenningi, en síðan verður því lokað fyrir fullt og allt. Það er um 50 km norður af Berlín, og var talið traustasta byrgið í Varsjárbandalagsríkjunum utan Sovétríkjanna.
Byrgið er á þremur hæðum og var fimm ár í smíðum. Það var tilbúið 1983, eða undir lok kalda stríðsins. Byrgið var þá það nýtískulegasta og best búna sem til var. Fátt er þó eftir af glæsileikanum en byrgið hefur legið undir skemmdum síðustu áratugina vegna raka.
Kjarnorkubyrgið er í skógi í Wandlitz um 25 km frá Berlín, á svæði þar sem nánast eingöngu starfsmenn austur-þýsku leyniþjónustunnar, Stasi, bjuggu. Þar áttu Erik Honeker, þáverandi leiðtogi Austur-Þýskalands, og um 400 æðstu embættismenn Austur-Þýskalands, að geta leitað skjóls ef kjarnorkustríð brytist út.
Honeker mun þó aðeins hafa skoðað byrgið einu sinni. Fréttavefur BBC hefur eftir sagnfræðingnum Sebastian Tenschert, Honeker hafi verið skelfingu lostinn þegar honum var sýnt jarðhýsið.
Byrgið er alls um 6500 fermetrar að stærð. Í því eru alls 170 herbergi á þremur hæðum, sem ná niður á 70 metra dýpi. Í byrginu var gosbrunnur, loftræsting og fóðruð herbergi sem áttu að vernda íbúana fyrir sprengingum.