Tólf ára stúlka slapp lifandi er hún féll niður 15 hæðir í gegnum skorstein í New York. Stúlkan var að leika sér á þaki 13 hæða íbúðarhúss í West Village - þar sem hún býr - þegar hún ákvað að klifra upp stiga sem lá upp skorsteininn, sem er tveggja hæða hár, með fyrrgreindum afleiðingum.
Íbúar í húsinu fundu stúlkuna, sem heitir Grace Bergere, á lífi í kjallara hússins. Hún meiddist á mjaðmagrind og hafði fótbrotnað. Íbúarnir í borginni tala um kraftaverk.
„Hún var sótug en á lífi,“ sagði húsvörður fjölbýlishússins í samtali við fjölmiðla.
„Ég er svo glöð að hún sé á lífi. Þetta er kraftaverk,“ sagði nágranni stúlkunnar. „Guð hlýtur að vaka yfir henni.“
Slökkvilið New York-borgar segir að það hafi orðið stúlkunni til happs að á botninum var hálfsmetra þykkt lag af sóti sem dró úr fallinu.