Maður grunaður um dreifingu miltisbrands framdi sjálfsvíg

Bandarískur vísindamaður, sem grunaður var um að hafa átt aðild að því að miltisbrandi var dreift í pósti í Bandaríkjunum árið 2001, fannst látinn á heimili sínu.   Í dagblaðinu Los Angeles Times kemur fram að Bruce Ivins, 62 ára, hafi framið sjálfvíg með því að taka of stóran skammt af verkjalyfjum.  Í blaðinu segir að Ivins hafi nýlega heyrt að til stæði að lögsækja hann.

Fimm manns létu lífið og 20 veiktust eftir að miltisbrandi var komið fyrir í umslögum sem send voru fjölmiðlafyrirtækjum og stjórnmálamönnum í Bandaríkjunum skömmu eftir hryðjuverkaárásirnar í New York árið 2001.

Ivins starfaði fyrir ríkisstjórnina sem örverufræðingur og hafði aðstoðað Alríkislögregluna við að rannsaka umslög sem innihéldu miltisbrand.  Ivins starfaði á rannsóknarstofu ríkisins í Maryland síðastliðin 18 ár.

Póstþjónusta fór úr skorðum vegna öryggisaðgerða og þingbyggingu var lokað tímabundið í kjölfar dreifingu miltisbrandsins.   Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur ekki tjáð sig um málið, að því er fram kemur á fréttavef BBC.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka