McCain: Skopskyn nauðsynlegt í kosningabaráttunni

John McCain, forsetaframbjóðandi bandarískra repúblíkana, með eiginkonu sinni Cindy.
John McCain, forsetaframbjóðandi bandarískra repúblíkana, með eiginkonu sinni Cindy. AP

John McCain, forsetaframbjóðandi repúblíkana í Bandaríkjunum, segir ekkert athugavert við auglýsingar sem hann hefur birt þar sem dregið er dár að keppinauti hans, Barack Obama. Segir McCain að nauðsynlegt sé að hafa skopskynið í lagi í kosningabaráttunni.

Í nýrri auglýsingu, sem ekki verður birt í sjónvarpi heldur aðeins á netinu, er Obama kallaður „hinn eini,“ og birtar myndir af honum þar sem hann lýsir sjálfum sér á afar háfleygan hátt og segir m.a. „Þá fór yfirborð sjávar að lækka og líf kviknaði á jörðinni á ný.“

Lýkur auglýsingunni með úrklippu úr kvikmyndinni Boðorðunum tíu, þar sem Charlton Heston klýfur Rauða hafið.

Þetta er ekki fyrsta auglýsingin frá McCain þar sem gert er grín að Obama og gefið í skyn að hann sé innihaldslaus fjölmiðlaímynd. Nýlega birtist auglýsing þar sem Obama var líkt við Britney Spears og Paris Hilton.

McCain hafnar þeirri gagnrýni að kosningabarátta sín sé á neikvæðum nótum.

„Við gætum þess að það sé húmor í henni, okkur finnst gaman og skemmtum okkur vel ... við ætlum að halda áfram að berjast alveg til fjórða nóvember.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert