Barack Obama, forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins í Bandaríkjunum, er andvígur því að afkomendum þræla verði boðnar bætur, og er að þessu leyti á öndverðum meiði við ýmis samtök blökkumanna og leiðtoga þeirra.
Obama, sem á góða möguleika á að verða fyrsti blökkumaðurinn á forsetastóli í Bandaríkjunum, heldur því fram, að stjórnvöld eigi frekar að beita sér gegn afleiðingum þrælahaldsins með umbótum í skólakerfinu, heilbrigðiskerfinu og efnahagslífinu sem komi öllum til góða.
Ein helstu samtök blökkumanna í Bandaríkjunum, NAACP, eru fylgjandi frumvarpi til laga um skipan ráðs sem athuga á framkvæmd greiðslna og annarra bóta til handa afkomendum þræla.
Fréttaskýrendur segja að Obama vilji koma fram sem maður sáttaumleitana og samheldni, en vilji ekki að fólk skipist í hagsmunahópa sem hver hafi sína kröfugerðina. Ef hann væri fylgjandi bótagreiðslum kynni að líta út fyrir að hann væri að koma sér í mjúkinn hjá blökkumönnum.