Frambjóðendur hnífjafnir

McCain með konu sinni, Cindy.
McCain með konu sinni, Cindy. AP

Samkvæmt nýrri Gallup-könnun njóta forsetaframbjóðendurnir í Bandaríkjunum, John McCain og Barack Obama, jafn mikils fylgis, en fyrir tíu dögum hafði Obama níu prósentustiga forskot.

Könnunin sem birt var í gær sýndi, að báðir hafa 44% fylgi. Í könnun sem birt var 26. júlí, þegar Obama var nýkominn úr ferð til Evrópu, sem fjölmiðlar fjölluðu mikið um, hafði hann umtalsvert forskot.

Undanfarna daga hefur McCain birt fjölda auglýsinga þar sem fjallað er með neikvæðum hætti um Obama, og honum m.a. líkt við dægurstjörnurnar Britney Spears og Paris Hilton.

Ennfremur lét McCain þau orð nýverið falla, að Obama væri til í að tapa í Íraksstríðinu ef það mætti verða til þess að færa honum sigur í forsetakosningunum.

Obama sagði í gær að kosnignabarátta McCains einkenndist af biturð, en sér dytti ekki í hug að saka hann um kynþáttahyggju. 

„Liðsmenn hans eru lunknir við að beina athygli kjósenda frá alvarlegum málefnum, og beita neikvæðni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka