Móðir Paris Hilton skammar John McCain

Kathy Hilton, móðir samkvæmisflugunnar Paris Hilton, hefur ekki sama skopskyn og forsetaframbjóðandinn John McCain. Hann sagði í síðustu viku, að auglýsingaherferð þar sem myndir Paris Hilton og Britney Spears voru notaðar til að gera gys að mótframbjóðandanum Barack Obama, væri til þess ætluð að koma með grín inn í kosningabaráttuna.

„Þetta er alger sóun á tíma og athygli þjóðarinnar á tímum þar sem milljónir manna eru að missa heimili sín og atvinnu," skrifar Kathy Hilton í grein á vefsíðu blaðsins Huffington Post. „Og þetta er fáránleg aðferð við að velja næsta forseta Bandaríkjanna."

Hilton hefur gefið fé í kosningasjóð McCains. 

Auglýsingarnar umdeildu leggja út af vinsældum Obama en gefa í skyn að ekkert sé á bak við þær heldur sé hann aðeins frægur fyrir að vera frægur, líkt og Paris Hilton og Britney Spears. Framboð Obama segir að þessar auglýsingar sýni að McCain leggi meiri áherslu á neikvæðar auglýsingar en uppbyggilega málefnaumræðu.

McCain vísaði því á bug sl. föstudag, að kosningabaráttan einkenndist af niðurrifsstarfsemi. „Við teljum að það sé mikil gamansemi í henni, við skemmtum okkur og njótum þess." 

En Kathy Hilton segir í greininni, að auglýsingin sé hrein og bein sóun á þeim fjárframlögum, sem McCain hafi fengið frá stuðningsmönnum sínum.  

Kathy Hilton og eiginmaður hennar hafa samtals lagt framboði McCains til 4600 dali, jafnvirði  um 370 þúsund króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert